Kristilegt uppeldi

Ég er sennilega að hætta mér útá hálan ís með því að ræða um trúarbrögð hér.  En ég varð einfaldega að rasa aðeins út um þessa frétt hér: http://visir.is/article/20071129/FRETTIR01/71129038.

Hún fjallar í stuttu máli um að ákveðnir leikskólar í Breiðholti hafa ákveðið að gera hlé á samstarfi við kirkjuna.

Ég lít á mig sem kristinn, en er ekki gríðarlega trúaður.  Einu kirkjuheimsóknir mínar eftir fermingu eru brúðkaup og jarðafarir og einstaka skírn.  Ég ber virðingu fyrir öðrum trúarbrögðum og hef haldið á lofti þeirri skoðun minni að kristin trú hefur kostað fleiri mannslíf síðustu 1000 árin en nokkur annað.

Engu að síður er kristna trúin eins og hún er kennd í skólum mjög falleg.  Hún kennir virðingu fyrir öðrum, fyrirgefninguna og tekur á grundvallargildum góðs samfélags.  Vissulega kennir hún þetta með sögum (sem margir kalla tröllasögur) af Jesú og kraftaverkum hans.  Allt saman eru þetta afskalega fallegar sögur af góðum manni sem vill engum illt, ekki einu sinni vondu fólki.

Ég las þessar sögur þegar ég var ungur, vegna þess að þær voru kenndar í skólanum.  Innihald þeirra flestra er gleymt en grundvallaratriðin sitja eftir.  Ég vil að dóttir mín lesi þessar sögur og kynnist kristinni trú í gegnum skólakerfið.  Ég vil líka að hún kynnist gildum annarra trúa, en kristnin á að vera grundvöllurinn í trúarbragðafræðum skólanna. 

KRistin trú hefur verið trú íslendinga síðustu 1007 árin og það á ekki að breytast þó hingað flytji til lands fólk af öðrum uppruna sem alið hefur verið upp við önnur trúarbrögð.  Mergur málsins er nefnilega sá að Kristin trú, Íslam og mörg önnur trúarbrögð eru byggð á sömu grundvallarhugmyndinni um einn guð.  Ágreiningurinn liggur einungis í hver bað út boðskap hans.

 


óþolinmæði og verslunarferðir

Ég er einn af þeim sem þykir með endemum leiðinlegt að versla eða rölta í búðir, ef matvörubúðir eru undanskyldar.  Ég verð óþolinmóður eftir korter, og pirringurinn er kominn innan hálftíma, og ef verslunarferðin er ekki búin eftir 45 mínútur spring ég yfirleitt og dreg konuna útúr mátunarklefanum og segi henni að drífa sig núna elleger taka strætó heim.  Enda í þetta eina skipti á ári sem ég fer og ætla að versla föt á mig, finn ég flíkur sem passa og mér líst vel á, og kaupi þrjár.....reyni samt að hafa þær ekki allar í sama litnum.

Ég er samt búinn að finna lausn á þessu, og veit nú hvernig ég get farið í búðir án þess að strressa mig.  Taka Lilju með mér í verslunarferð.  Við kíktum í IKEA í gær eftir leikskólann, einfaldlega vegna þess að við nenntum ekki heim strax.  Þarna röltum við um í rólegheitunum, hún fékk að hlaupa ef hún vildi, sitja í kerruni ef hún vildi eða standa í kerrunni ef hún vildi.  Ef ég sá eitthvað sem okkur hugsanlega vantaði, spurði ég hana álits, og keypti ef hún samþykkti.  Þannig keypti ég hlýja inniskó, auðvitað bláa þar sem það virðist vera uppáhaldsliturinn hennar þessa dagana, og veggklukku í tölvuherbergið. (NB. klukkan var auðvitað átta)  Þegar inní barnahornið var komið varð hún ansi glöð og lék sér þar í smá tíma, í rennibrautinn og litlu einsmanns plastvegasalti.  Ég ætlaði nú að kaupa slíka græju handa henni, en þegar við komum að sjálfsafgreiðslulagernum og ég fann þetta aftur spurði ég hana hvort ég ætti að kaupa svona handa henni.  hún svaraði brosandi "Nei". Hún veit hvað hún vill þessi elska og hefur skoðanir á hlutunum.  Svo var auðvitað endað í IKEA pylsu þar sem Lilja sporðrendi tveimur með engu.  Eplið fellur sjaldan langt frá eikinni Grin


Bíó og Burritos

Við hjónin skelltum okkur í bíó í gær (ég held þetta sé í fyrsta skipti sem ég nota hjón yfir okkur, hljómar hálf undarlega Errm Smile) á American Gangster. Fín mynd og mæli ég með henni. Er það ýmindun í mér eða eru sætin í Smáralindin og Álfabakkanum miklu betri en í Kringlunni?

  Við rifjuðum upp hvenær við fórum nú í bíó síðast, því það er langt um liðið.  Síðasta bíóferð var í Stavenger í Noregi í september, í sal 7 í hinu ágæta kúltúrhúsi þar.  Ca. 18 sæta salur sem við sátum í og horfðum á 28 weeks later.  Áður en myndin hófst var gengið í salinn og allir beðnir um skilríki, þar sem myndin var bönnuð innan 18.  Þrír útlenskir strákar sátu þarna og sögðust ekki hafa skilríki á sér (hverjar eru líkurnar á því að þú talir ekki norsku í noregi og hafir engin skilríki á þér?) Ég hefði giskað á að þeir væru 17-18 ára.  Þar sem þeir voru ekki með skilríki, var hóað í öryggisvörð sem vísaði þeim úr salnum, ansi skemmtilegt atriði.

Þar sem við fórum í sex bíó gafst ekki mikill tími fyrir rómantískan kvöldverð fyrir bíóverðina, og því fórum við á Stjörnutorg Kringlunnar. Þar hafði ég ekki borðað í furðu langan tíma miðað við að þarna er senniega besta úrval skyndibitastaða samankomið á einum stað í heiminum.  Við fórum á Serrano og fengum okkur Burritos.  Við fáum okkur reglulega Burritos heima, eða pönnukökur eins og það er kallað í minni familíu.  Ljómandi góður matur og einfaldur í eldun.  Ég hef fengið mér svoleiðis tvisvar á Taco Bello og það er hreinn viðbjóður.  Á Serrano var þetta hinsvegar æðislegt.  Ég trúði ekki hversu miklu magni af kjúkling og meðlæti var hægt að troða á þetta, en það hafðist og það meira að segja gekk vel að borða þetta þrátt fyrir að það væri gjörsamlega útroðið.

Þannig að ég mæli hiklaust með American Gangster og Serrano.


Facebook

Ég skráði mig á Facebook í gærkvöldi.  Þetta er víst aðalhæpið í dag.  Ég er nú ekki vanur að stökkva á þessi hæp öll, en ákvað að gefa þessu séns.  Allir segja að þetta sé ógeðslega sniðugt.  Allt gærkvöldið fór auðvitað í að skoða þetta og mér sýnist þetta geta verið hinn mesti tímaþjófur.  Auðvitað gaman að sjá gamla skólafélaga og gamla vini þarna.

Það væri auðvitað meira vit í þessu ef fólk gæti skrifað einhver ákveðið sérsvið þarna.  Svo ef mig vantar pípara þá leita ég bara eftir því og finn flottan pípara í gegnum vin vinar vinar míns sem gefur mér góðan afslátt.  Kannski þetta sé hægt án þess að ég viti af því.

Annars var Microsoft að kaupa 1,6% hlut í Facebook á 240 milljónir dollara. Verðmæti síðunnar miðað við það verð er því um 15 milljarðar dollara eða 923.250.000.000 ISK miðað við miðgengi USD kl. 10:00 í morgun.


Starfsfólk á kassa í verslunum

Hver kannast ekki við það að fara að versla og vera pirraður í röðinni og láta svo greyið starfsmanninn á kassanum fá skammir sem hann á ekki skilið (kannski á hann þær skilið í sumum tilfellum, en allir geta gert mistök etc.)  Yfirleitt er þetta mjög ungt fólk á kössunum, um eða undir tvítugu, eða jú útlendingar.

 Nú geri ég öll stórinnkaup í Bónus, þó maður kíki í krónuna endrum og eins líka. Ef eitthvað lítið vantar, eða góðan ferskan mat er Nóatún yfirleitt fyrir valinu.  Bónus er jú lágvöruverslun á meðan Nóatún gerir út á gæði og góða þjónustu.

Í bónus þarf maður jú að bíða í röð, en kassafólkið er mjög röskt og kurteist þótt pirringur og stress viðskiptavina svífi um alla verslun.  Maður tekur í raun fyrst eftir því hvað margir eru verulega stressaðir, þegar maður er sjálfur afslappaður.  Ég hef jú lent í starfsólki í bónus sem þekkir ekki muninn á kálhaus og appelsínu, eða sem er svo hægt að maður gæti ferjað hverja vöru útí bíl áður en næsta vara er kominn í gegnum skannann.  en yfirleitt er þetta nýtt starfsólk sem er orðið röskt eftir nokkurra daga þjálfun.

hinsvegar þegar ég fer í Nóatún, yfirleitt í Hafnarfirðinum, þá er ekkert að gera.  Krakkarnir á kössunum eru þá spjallandi við hvert annað, og alveg sama þó það sé kominn kúnni, þeir klára sínar samræður áður en kúnninn er afgreiddur.  Þetta á ekki bara við á kössunum þar, heldur í kjötborðinu líka.  Þetta getur verið sérlega pirrandi þegar maður þarf að bíða í mínutur eftir afgreiðslu og enginn á undan manni í verslun sem gerir út á gæði og góða þjónustu.

Og fyrst ég er að tala um starfsfólk verslana fá tvær sögur að fylgja með.

Sú fyrri er um virkilega pirraðan viðskiptavin í Bónus sem gjörsamlega springur þegar hann er kominn á kassann og hellir sér yfir aumingja kassadömuna sem er sárasaklaus af því sem maðurinn eys út úr sér.  hún leyfir honum að klára að rasa út. Þegar kúnninn hefur lokið sér af segir afgreiðslustúlkan einfaldlega "I´m sorry, I don´t understand Icelandic"

Hin gerist í Nóatúni þegar eldri kona kemur með tvo hluti á kassann og segir við ungann afgreiðslustrák "Ég ætla að fá hvorutveggja"  greyið strákurinn verður eitt stórt spurningamerki og spyr "ætlarðu að fá hvorutveggja!!!! hvað þýðir það eiginlega", Strákurinn á næsta kassa svarar þá "hey, þetta gerðist fyrir mig í síðustu viku. Þetta þýðir að hún ætlar að fá báða hlutina!!"

 


Heimasíða kaupir fótboltalið

Þar kom að því. Myfootballclub.co.uk hefur loksins látið verða að því að kaupa fótbolafélag.  Fyrir valinu var stórveldið Ebbsfleet United FC, áður þekkt sem Gravesend & Northfleet FC.

Liðið er sem stendur í ágætis stöðu í efstu utandeild, og með smá heppni gæti liðið unnið sér sæti í ensku annarri deildinni áður en langt um líður. Heimavöllur þeirra, Stonebridge Road, tekur aðeins 5248 áhorfendur, en til stendur að byggja nýjan leikvang.  Er málið að henda 35 pundum í þetta ævintýri á ári, bara til þess að geta sagst eiga hlut í fótboltaliði.  Einnig fær maður rétt til að kjósa um byrjunarliðið í hverjum leik og hafa áhrif á leikmannamarkaði.

Ég veit það ekki, en ég hef á tilfinningunni að þetta sé dauðadæmt frá upphafi.  Lýðræði hefur aldrei verið líklegt til árangurs í íþróttum.  Og hvernig ætli sé að vera stjóri (þjálfari) sem hefur lítið sem ekkert um það að segja hvaða leikmenn spila hvaða leiki!!


Engin fyrirsögn!

Nágranni minn bankaði upp á hjá okkur í gærkvöldi þegar ég var í fótbolta.  Guðbjörg, í náttfötunum þar sem hún er búin að vera með leiðindaflensu í 2-3 daga, hálfopnaði hurðina til að sjá hver væri þar á ferli.  Þar var kona í kringum fimmtugt sem spurði hana "Er mamma þín eða pabbi heima?"

 


Svarthvítt sjónvarp?

Nú er maður á leið til Leeds í desember að sjá stórlið Leeds fá nágranna sína í Huddersfield í heimsókn.  Ferðin mun vera nýtt í úrvalsdeildarleik líka og er þá helst middlesboro - Arsenal eða Blackburn - West Ham sem koma þar til grein.  Flogið verður til Manchester, en heim frá London þar sem einum degi verður eytt í höfuðborginni.

Mér tókst að draga pabba gamla með í þessa ferð, fyrsta skipti sem hann kemur til Leeds!! og fyrsta skipti sem við förum saman til útlanda síðan sumarið áður en ég fermdist, eða 1991. Þá spókuðum við okkur í sólinni á Mallorca.  Það má búast við örlítið kaldara veðri í Leeds í desember en Mallorca í ágústmánuði 1991.

Annars var ég að leita að hóteli í London þessa einu nótt sem við verðum þar, og ákvað ég að kíkja á hið gamla góða St giles hótel.  Herbergin þar eru á fínum prís, en ég hnaut um eitt atriði þegar ég las hvað væri innifalið í verðunum.

Fyrir twin eða double room, sem kostar 79 pund, er sitt lítið af hverju tiltalið, en síðust 2 atriðin eru "TV WITH PAY MOVIES & RADIO, PHONE WITH VOICEMAIL"

Deluxe Double room kostar hinsvegar 99 pund, og eru ýmis fríðindi innifalin í þessum auka 20 pundum sem ekki fást í standard herberginu, eins og hárblásari og stafrænn peningaskápur.  2 síðustu atriðin eru hinsvegar þessi "COLOUR TV WITH PAY MOVIES & RADIO, PHONE WITH VOICEMAIL"

Ætli þriggja stjörnu hótel bjóði uppá svarthvít sjónvörp fyrir þá sem tíma ekki að öpgreita í deluxe herbergi?  Ég held ég verði að panta standard herbergi á St Giles hótelinu, bara til að komast að því!!


Magnaður endir á amerískum fótboltaleik

Þriðjudeildar háskólalið Trinity frá Texas með magnað sigursnertimark.

Með þeim mögnuðustu sem ég hef séð

 


Gaman í vinnunni

Ég var í sakleysi mínu í síðustu viku að tala í símann í vinnunni, þegar mest pirrandi vinnufélagi í heimi fór að kasta litlum pappírskúlum í mig.

Ég er ekki kallaður þráðurinn fyrir ekki neitt. 

 

 Í kjölfarið var ég færður í aðra deild til að fá frið fyrir eineltinu.  Prentarinn þar er hálfónýtur.  Í gær þurfti ég að senda mikilvægt skjal frá mér sem allra fyrst. Prentarinn stríddi mér eins og vanalega, en ég dó ekki ráðalaus og reddaði málunum......hélt ég.......ég vildi að snúran hefði verið aðeins lengri.

 

 

Í dag vantar mig vantar vinnu


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband