27.1.2008 | 19:50
R.I.P. Fermingasjónvarpið mitt (1992 - 2008)
Gamla 20 tommu Beko sjónvarpstækið mitt er látið, tæplega 16 ára að aldri.
Við áttum margar góðar stundir saman, og þjónaði það mér vel í herberginu mínu í Dalalandinu á árunum 1992-2000, eða allt þar til ég fór að búa með Guðbjörgu minni í Mosgerðinu. Þá tók ég þá ákvörðun að kaupa mér nýtt og stærra tæki (sem þjónar mér enn og er við hesta heilsu),
Karen systir erfði tækið og þjónaði það henni vel í nokkur ár, eða allt þar til henni áskotnaðist eigið tæki. Þá fór Beko gamli niður í geymslu þar sem hann hvíldi í nokkur ár, eða allt þar til ég tók hann upp á arma mína í Hafnarfjörðinn, sem annað tæki, fyrst í herberginu hennar Lilju, en við fluttum það í svefnherbergið okkar þegar Lilja áttaði sig á því að þetta væri hennar herbergi.
Hann eyddi því elliárunum í svipaðri stöðu og hann hóf líf sítt, sem herbergisfélagi minn. Þó hann hafi ekki verið mikið notaður þessa mánuði, þá bjargaði hann heimilisfriðnum nokkuð oft, þegar ósætti var hvað skildi horft á í sjónvarpinu.
Dánarorsök Beko gamla var Manchester United - Tottenham.
Ég mun sakna þín gamli vin og minnast stunda okkar saman. Við áttum margar góðar stundir þegar Leeds spiluðu hvað bestan bolta og oft var mikið fagnað. Þú varst einfalt tæki, en gæðin voru alltaf góð. en nú ertu kominn á betri stað, sjónvarpshimnaríki. Ég vona að þú eigir eftir að kunna vel við þig þar, innan um stóru plasmaskjáina. Þú ert alvöru sjónvarp, ekki eitthvað tískufyrirbrigði sem lifir í 2-3 ár.
Útför verður auglýst síðar. Blóm og kransar vinsamlegast afþakkaðir.
Athugasemdir
Blessuð sé minning þín!
Begga syss (IP-tala skráð) 28.1.2008 kl. 12:06
Sniff, sniff, votta þér samúð
Anna Guðrún (IP-tala skráð) 29.1.2008 kl. 18:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.