20.12.2007 | 10:33
Leeds ferðasaga annar hluti
Að leik loknum var ætlunin að hitta Eric, stórLeedsara, sem bjó á Íslandi lengi vel, en fluttist svo aftur heim til Leeds, hjá Bremner styttunni og ætlaði hann að labba með hópinn að barnum hans Peter Lorimer, sem er önnur gömul Leeds hetja.
Þegar við vorum komnir einhver 5 að styttunni og vorum að bíða eftir afgangnum af hópnum, lætur lögreglan til skarar skríða til að dreifa áhorfendum og hindra hópamyndanir, því það hafði víst verið eitthvað vesen kvöldið áður og meðal annars var skvett blárri málningu á Bremner styttunna, og hún merkt HYC sem er einhver klíka ungra Huddersfield manna. Þvílíkur fjöldi lögregluþjóna dreifði hópnum, og ef maður labbaði ekki nógu hratt, þá var manni bara ýtt áfram. Á einu bílastæðinu við völlinn hafði safnast saman einhver hópur ungmenna, sem var nú ekki árennilegur, en löggan var búinn að snúa tvo þeirra niður og voru ekkert voða mjúkhentir. Þeir létu þó rafbyssurnar eiga sig. Við ákváðum því að leita skjóls inná McDonalds, og vona að einhverjir íslendingar myndu rata þangað, sem jú varð raunin.
Það var því ákveðið að taka leigubíl á pöbbinn hans Lorimer, og var leigubílaröð rétt við McDonalds. Þar voru skemmtilegar týpur í röðinni, og nokkrir félagar að reykja eitthvað ólöglegt enda voru þeir gjörsamlega útúrskakkir. Klárlega Huddersfield menn.
Pöbbinn var þéttsetinn en við fengum þó sæti fljótlega, sátum þar, fylgdumst með gangi mála í ensku leikjunum, sötruðum nokkra öllara og rifjuðum upp leikinn. Uppúr fimm var ákveðið að halda heim á hótel, því hátíðarkvöldverðurinn hófst kl. sjö. Við pabbi ákváðum nú samt að kíkja á pöbb nálægt hótelinu og horfa á Liverpool tapa fyrir Reading. Það var ekki leiðinlegt, og hittum við þar fyrir hressan hóp Norðmanna (já, þeir geta verið hressir!!).
Hátíðarkvöldverðurinn var haldinn á localpöbbnum hans Eric StórLeedsara í Harrogate, og komu rútur að sækja okkur. Stemmningin í hópnum var frábær og var mikið húllumhæ yfir matnum, en hápunkturinn án efa töfrabrögðin hjá Gísla yfirdómara þar sem hann lét klúta hverfa hægri vinstri og dró upp fullt af dóti úr tómum poka. ein skemmtilegasta setning ferðarinnar átti sér einmitt stað þetta kvöld, þegar rúturnar voru komnar að sækja okkur aftur, og Gísli þessi var nýbúinn að fá sér nýjan bjór, þann sautjánda þennan daginn. Einhver bað hann að sturta þessu í sig, því rúturnar væru að fara. Þá lagði hann bjórinn frá sér og sagði víst "Nei, ég drekk ekki, ég er á bíl" En 5 mín. síðar var hann kominn í rútuna og stjórnaði hópsöng þar líkt á leiðinni uppeftir. Þegar á hótelið var komið splittaðist hópurinn, sumir fóru í háttinn, aðrir settust á hótelbarinn, en við fórum nokkrir á klúbbarölt.
Sunnudagurinn 9.12
Við þurftum að ná lest til Middlesboro kl. 9:40 og því var vaknað snemma og heilsan var ekki upp á sitt besta. En við létum það ekki á okkur fá, og hentum okkur útá lestarstöð. Ferðin gekk vel og vorum við komnir til Middlesbro á góðum tíma, ákváðum að sækja miðana okkar strax og eltum einhverja menn merkta Arsenal, því við héldum að þeir vissu hvar völlurinn var.....svo var þó ekki. En við komumst þó á völlinn á endanum, eftir skemmtilegan göngutúr í gegnum fagurt iðnaðarhverfi í Middlesbrough. Við vorum þó ekki þeir einu sem villtust, því rúta Arsenal manna lenti víst einnig í vandræðum með að finna völlinn. Miðana fengum við í hendurnar góðum klukkutíma fyrir leik, og var hungrið þá farið að segja til sín. Okkur fannst ansi tæpt að labba til baka inní miðbæ, éta og koma svo aftur, þannig að slæm ákvörðun var tekin. Hamborgari fyrir utan Riverside leikvanginn. Þvílíkan viðbjóð hef ég ekki látið inn fyrir mínar varir ansi lengi, en hungrið var mikið og borgarinn því étinn. Sjöfalt magn tómatssósu sló aðeins á vonda bragðið af borgaranum.
Leikurinn var góður og maður sá greinilegan gæðamun á úrvalsdeildarfótbolta og þriðjudeildarboltanum, en stemmningin í Leeds var þó MUN betri, þrátt fyrir að Middlesboro hefði verið yfir frá þriðju mínútu. Var um miðjan seinni hálfleik sem alvöru stemmning fór að myndast, en hafði verið í rólegri kantinum fram að því, allavega samanborið við Leeds leikinn.
Við vonuðumst til að ná lest fljótlega eftir leik, en rétt misstum af henni, og það kostaði okkur að þurfa að sitja á pöbbnum og horfa á Blackburn - West Ham. Þegar upp á hótel var komið í Leeds, voru þar nokkrir á leiðinni út að borða og ákváðum við að slást í hópinn. Stefnan var sett á steikhús sem var hinum megin við brúnna, ca. 150 metrar frá hótelinu og við gætum ekki misst af því. Þessum leiðbeiningum var fylgt til hins ítrasta, en hvergi sást staðurinn. Var því spurt til vegar á pöbb í grendinni, og var okkur þá vísað að gulu húsi hinum megin við brúnna, og við gætum ekki misst af því. Okkur tókst samt ekki að finna þetta ágæta steikhús og enduðum því á Viva, litlum alvöru ítölskum stað sem var alveg stórkostlegur. Eigandinn og annar þjónninn byrjuðu á stórkostlegu skemmtiatriði þegar þeir reyndu að raða saman borðum fyrir 10 manns, og það var sko ekki einfalt. Ég var mjög feginn að þeir störfuðu í veitingabransanum en voru ekki verkfræðingar, því við bara redduðum þessu á 1 mínútu sem þeir höfðu verið að basla við í 10 mín. Maturinn var hinsvegar frábær og ítalarnir hinir hressustu.
Gengið var til náða snemma þetta kvöld eftir langan og strangan dag.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.