18.12.2007 | 09:39
Leeds ferðasaga fyrsti hluti
Ég hef verið á leiðinni að skrifa ferðasögu í heila viku, en það hefur verið ansi mikið að gera. Best ég byrji samt og hafi söguna í fleiri en einum hluta.
Föstudagurinn 7.12
Fríður hópur Leedsara hittist á barnum í Leifstöð klst. fyrir brottför, en þar voru einnig samankomnar stuðningsbullur annarra liða, og þá sér í lagi Rauða liðsins frá Manchester, sem ætluðu að sjá sína menn spila við skítalið Derby. Áfengið fór misvel í menn, og var stemmningin í flugvélinni þegar styttist í Manchesterflugvöll ansi skemmtileg. Magnað hvað kvöldflug eru yfirleitt skemmtilegri en morgunflug. Sökum sviptivinda í Manchester varð flugstjórinn að taka ákveðna lendingu, og minnti hún um margt á að hjóla á reiðhjóli fram af þriggja metra háum vegg. Gott að flugvélasæti eru þó mjúk.
Biðin eftir farangrinum var löng, og er ég nokkuð sannfærður um að flugvallarstarfsmenn í Manchester hafi tekist að slá kollegum sínum í París og Róm við í hægagangi. Þegar þær loksins skiluðu sér var haldið á lestarstöðina, og miðar keyptir fyrir hópinn, og eins og iðulega gerist, þá vorum við um þremur mínutum of sein, og við tók 57. mínútna bið eftir næstu lest.
Koman til Leeds var ljúf eins og alltaf, og marseraði þessi tæplega 30 manna hópur Leedsarar í gegnum miðborg Leeds með ferðatöskurnar sínar. Einhver læt vitlaust á kortið og tók gangan því um 15 mínútur í stað um þriggja. En það var bara hressandi.
Laugardagurinn 8. 12
Laugardagurinn var aðaldagurinn þar sem Leeds Huddersfield fór fram kl. 12:15. Þetta þýddi að maður var kominn á ról snemma. Við pabbi kíktum í morgunmatinn rúmlega 9.00 en leist ekkert rosalega vel á baunirnar, eggjahræruna og sveitta baconið, sér í lagi þar sem ekkert brauð virtist vera til staðar. Tókum við því morgungöngutúr um Leeds í leit að kaffihúsi, sem fannst fljótlega. Það kom mest á óvart hversu margir voru á ferli að versla í Leeds svona snemma á laugardegi.
Það var leiðindarigning sem tók á móti okkur á Elland Road og því myndaðist lítil stemmning fyrir utan völlinn, við nokkrir íslendingar ákváðum því að kíkja bara inn á völlinn í einn öllara í stað þess að hýrast úti í kulda og trekki.
Stemmningin rétt fyrir leik var hreint út sagt stórkostleg, ekkert sem sagði þér að um væri að ræða leik í þriðju efstu deild, enda var víst fjórða eða fimmta mesta aðsókn á leiki í Englandi á Elland Road þessa helgi, eða tæplega 33.000 áhorfendur = uppselt.
Þennan dag voru 10 ár liðin frá því að ein mesta hetja Leeds, Billy Bremner, lést. Í stað þess að hafa einnar mínútu þögn til heiðurs honum, var einnar mínútu fagnaðarlæti!!! Leikmenn stilltu sér upp í miðjuhringnum, dómarinn flautaði, og allir byrjuðu að klappa. Í kjölfarið fylgdu svo söngvar eins og There´s only one Billy Bremner og fleiri.
Leikurinn hófst, og stemmningin hélst frábær allan leikinn. Leikur Leedsara var gjörsamlega handónýtur í fyrri hálfleik og voru Huddersfield menn miklu sterkari. En eina skot Leeds í hálfleiknum, af 30 metrum, rataði í bláhornið og höfðu Leeds óversðskuldaða forystu í hálfleik. Leedsarar bættu öðru marki við snemma í síðari hálfleik og við það fór allur vindur úr Huddersfield mönnum og Leedsarar stjórnuðu leiknum algjörlega eftir það og hefðu getað unnið mun stærri sigur, en 4-0 varð niðustaðan, og menn gríðarlega sáttir.
Læt fylgja með hljóðskrá sem gefur ágæta mynd af stemmningunni
"15 points, who gives a fuck? We´re Super Leeds and we´re going up"
Framhald fyrr en síðar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.